Æfingar hefjast skv æfingatöflu 2. október
- Stjórn Umf. Samherjar
- Sep 29, 2021
- 2 min read
Nú loksins lítur æfingatafla haustannar fyrir og mun starfsemi hefjast á fullum krafti laugardaginn 2. október skv. töflunni. Ástæður fyrir seinkuninni eru einkum tvíþættar; annars vegar lokun íþróttahússins og hins vegar vegna mikillar vinnu sem farið hefur í að að skipuleggja fjármál félagsins með þeim hætti að rekstur þess verði sjálfbær án tekna af Handverkshátíð. Það má segja að stjórn félagsins hafi nýtt sér þennan tíma sem íþróttahúsið var lokað til að fara rækilega ofan í saumana á rekstrinum.
Við vinnu sína á kostnaðargreiningu starfsins hafði stjórnin annars vegar iðkendatölur til viðmiðunar og hins vegar kostnað, þar á meðal launakostnað og húsaleigu í íþróttahúsinu. Markmið vinnunnar var að kostnaðargreina íþróttagreinarnar sem stundaðar hafa verið og einfaldlega skera niður þær greinar sem ekki voru að standa undir sér. Þá gerði stjórnin könnun meðal nemenda í Hrafnagilsskóla á því hvaða íþróttagreinar nemendur vildu stunda og væru ekki þegar í boði. Niðurstaðan var nokkuð afgerandi og því höfum við sett fimleikaæfingar á dagskrá fyrir 1. – 4. bekk og bætt við þrektímum fyrir 7. – 10. bekk.
Rafíþróttir voru mikið til umfjöllunar í stjórninni og fékk hún m.a. fulltrúa rafíþróttadeildar Þórs frá Akureyri til fundar við sig. Niðurstaðan á þeim vangaveltum varð sú að halda áfram að vinna í hugmyndum að rafíþróttastarfi og finna réttu forsendurnar og rétta fyrirkomulagið.
Þá hefur stjórn Samherja og fulltrúar sveitarfélagsins verið í samtali undanfarið um endurbætur á samningi milli aðila en núgildandi samningur var undirritaður 2013 og litlar breytingar verið gerðar á honum. Í þeim viðræðum hefur stjórnin það sama að leiðarljósi að gera reksturinn sjálfbæran án tekna af Handverkshátíð enda hefur það sýnt sig í Covid-faraldrinum að á hana er ekki að treysta. Vegi þær tekjur of mikið í rekstrinum, eins og verið hefur undanfarin ár, getur illa farið. Vonast er til að skrifað verði undir nýjan samning á næstu vikum.
Tekið verður upp nýtt skráningar- og samskiptaforrit fyrir iðkendur, foreldrar og þjálfara. Um er að ræða SportAbler sem mun leysa Nóra af hólmi. Vegna þessa mun stjórnin gefa út nánari upplýsingar um skráningu iðkenda í kerfið síðar en verið er að innleiða það þessa dagana. Fram að því er hægt að prófa þær íþróttagreinar sem í boði eru. Þegar opnað verður á skráningar er mikilvægt að iðkendur verði aðeins skráðir í þær greinar sem þeir ætla að stunda.
Í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins hefur reynst óumflýjanlegt að hækka æfingagjöldin sem á síðasta tímabili voru kr. 15.000 pr önn. Æfingagjöldin hækka upp í kr. 20.000 fyrir önnina, en sökum lokunar íþróttahússins nú á haustönn verða æfingagjöld annarinnar kr. 15.000.
Við skörtum góðum hópi þjálfara í vetur og verða upplýsingar um þá settar inn á vefsíðu okkar. Allar lykilupplýsingar verða svo uppfærðar á vefsíðunni okkar samherjar.is.
Annars bendum við fólki á að senda okkur póst á samherjar@samherjar.is ef það hefur einhverjar athugasemdir eða ábendingar.
Stjórn UMF Samherja

.png)




Comments