Stór dagur hjá Samherjum í borðtennis

Í dag lauk keppni í riðlakeppni 2. deildar norður í Íslandsmótinu í borðtennis.  Spilaðar voru 3 viðureignir sem hafði verið frestað og var meðal þeirra viðureign Samherja B og Akurs B en sigur í þeirri viðureign var báðum liðum nauðsynlegur til þess að ná 2. sæti riðilsins og þar með sæti í úrslitakeppninni.

Stutta útgáfan af deginum er sú að Samherjar B sigruðu leikinn og líka frestaðan leik sinn við Akur C og eru því komnir í úrslitakeppni annarrar deildar og spila innan skamms um sæti í fyrstu deild.  Til hamingju drengir og allir Samherjar.  Leikinn spiluðu Jón Elvar, Jóhannes og Ingvi og voru þeir nokkuð öruggir þrátt fyrir að æfingasóknin hefði getað verið betri að undanförnu.

Þar með er búið að gera grein fyrir tveimur leikjum og einn eftir.  Þar var um að ræða frestaðan leik Samherja A við Akur C en Samherjar A hafa ekki unnið leik í vetur þótt stundum hafi legið nærri.  Þeir gerðu sér lítið fyrir og sigruðu að þessu sinni og fara því ekki í gegn um mótið án sigurs.  Leikinn spiluðu Úlfur, Sindri og Heiðmar fyrir hönd Samherja og Úlfur átti innkomu dagsins en hann vann sinn einliðaleik örugglega.  Þarna var iðjusemi hans (og akstur til Reykjavíkur á landsliðsvalsæfingar) að skila sér.

Í framhaldi af þessu má nefna að það verður erfitt að ná meiri fjölda eða halda við getustigi þessa unga fólks nema það fái frjálsan aðgang að borðtennisborði til æfinga og leiks.  Við verðum því að leggja allt okkar traust á velvilja Hrafnagilsskóla til þess að hliðra til og leyfa borðtennisborði að standa í gamla anddyrinu eins og það gerði hér fyrr á tíð.  Ef börnin ná aðgangi að því að loknum skólatíma auðveldar það bæði nýliðun og framfarir.

En nóg um það í bili.  Til hamingju með þennan árangursríka dag Samherjar. Myndir koma á Facebook síðuna.

Bestu kveðjur

Borðtennisþjálfararnir.