HUGLEIÐING – Hvað hvetur til þátttöku í íþróttastarfi og hvað letur?

ÞÁTTTAKAN ER ÁGÆT EN SAMT

Nú er liðið nokkuð á árið og vetrarstarf Ungmennafélagsins Samherjar er komið í nokkuð fastar skorður.  Það hefur tekist nokkuð vel að manna þjálfarastöður og yfirleitt með vel menntuðum og hæfum þjálfurum.

Boðið er upp á boltatíma, frjálsar íþróttir, sund, badminton og borðtennis fyrir börn og unglinga og auk þess körfubolta fyrir þau elstu.  Allt er þetta í boði í íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar, eins og kostur er í beinu framhaldi af skóla, og verðlagningnin ætti ekki að vera til að fæla neinn frá eða einungis 10 þúsund hver önn fyrir barnið og mest 20 þúsund fyrir systkin.

 

ALLIR MEÐ OG ENGINN SKAMMAÐUR ÞÓTT ANNAÐ TRUFLI MÆTINGAR

Það markmið er sett með íþróttaiðkun barnanna að þau geti kynnst öllum íþróttagreinunum og iðkunin og félagsskapurinn er grundvallaratriðið og heilbrigðið og hollustan sem í því felst.  Einnig er í flestum greinunum reynt að sinna einnig kröfum þeirra sem leggja áherslu á íþróttina sem keppnisíþrótt og hafa metnað til þess að ná langt.

En þegar litið er á mætingalistana hjá þjálfurunum þá vakna fjölmargar spurningar.  Það virðist sem svo að fjöldamörg börn mæti ekki í einn einasta tíma, aldrei nokkurn tíma. Og hlutfall þeirra sem aldrei mæta hækkar með hækkandi aldri og gildir þar einu hvort börnin búa í göngufæri við íþróttamiðstöðina eða ekki.

Hverju er hér um að kenna?  Er hreyfingin ekki áhugaverð?  Hræðast börnin pressu á að keppa eða er ástæðan sú að ekki er næg keppnisáhersla? Ein ástæða gæti verið íþróttaiðkun annarsstaðar og er það að mínu mati sú ástæða sem engar áhyggjur þarf að hafa af því að ef svo er er allt í himnalagi.  Einnig gæti verið að foreldrar fælist kostnað við útbúnað og keppnisferðir sem margir telja óhjákvæmilega fylgifiska íþróttaiðkunar.  Svo er þó alls ekki hér í sveit eins og áður er tekið fram.

 

ER SINNULEYSI FORELDRA ÁSTÆÐAN?

En það gæti einnig verið að sinnuleysi foreldra væri um að kenna. Fólk horfi á sinn eiginn þægindaramma því það þarf aðeins að hafa fyrir því að tendra áhuga á hreyfingunni og halda honum við.  Það gæti líka verið að börn séu upptekin við tölvuleiki og að gæta þess að missa ekki af neinu í sjónvarpinu eða á Fasbókinni og að af því að þau eru þæg þannig er enginn að ýta þeim af stað í skipulagt íþróttastarf.

 

EÐA ERU ÆFINGARNAR BARA ALLS EKKI SKEMMTILEGAR

Nær undantekningalaust taka þau börn þátt í æfingum sem eru að þvælast í nágrenni þeirra og er boðið að vera með. Og hafa gaman af.  En það virðist ekki endilega nægja til þess að þau mæti aftur.  Sumir segja “ég er ekkert að æfa” þegar maður spyr hvort þeir vilji ekki koma.  Það er því ekki hægt að taka nógu oft fram að hér þarf enginn að “vera að æfa”.  Það er nóg að mæta stundum og í þá íþróttagrein sem mann langar hverju sinni.  En auðvitað finna flestir sem koma löngun til þess að koma aftur og aftur en þar ræður fleira niðurstöðunni en frammistaða þjálfarans og fyrirkomulag æfinganna.

 

HVAÐ VEIST ÞÚ UM ÞETTA SIGURÐUR?

Ég er ekki alveg blautur á bak við eyrun varðandi íþrótta- og æskulýðsstörf og mín vissa er sú að þátttaka fullorðinna í starfinu er grundvallaratriði ef vel á að takast til og festa á að nást.  Það á við um yngri börnin af því að þau þurfa hvatningu og hjálp og það á við um unglingana af því að þau þurfa hvatningu og samveru með foreldrum og fullorðnum.

 

FORGANGSRÖÐUN Í ÞÁGU BARNA OG UNGLINGA GAGNAST BÆÐI ÞEIM OG OKKUR – TIL FRAMBÚÐAR

Og við þessi fullorðnu eigum að forgangsraða í þágu barna og unglinga og taka þátt í íþróttastarfinu með þeim af fullum áhuga og skapa þannig samverustundir, æfingu og reynslu sem allir búa að ævilangt.  Og auðvitað á þetta sama við um aðra þroskandi tómstundaiðju, til dæmis tónlist eða myndlist.  En vert er að muna að eitt tómstundamál útilokar ekki annað og að hreyfing og iðkun íþrótta undir stjórn þjálfara er hollur munaður sem fleiri ættu að nýta sér.

Það er gríðarlega algengt að fólk hætti íþróttaiðkun alveg upp úr tólf ára aldri.  Er ekki kominn tími til að breyta því?  Er ekki kominn tími til þess að foreldrar komi meira upp úr sófunum og sinni íþróttaiðkun með börnunum sínum?  Og það þótt þau verði unglingar og síðar fullorðið fólk.  Þó ekki væri nema bara vegna þess að það er ómetanlegt.

 

Skráð á októberkvöldi árið 2013.

 

Sigurður Eiríksson