Bryðjur á Rokköld

Dagana 25.-27. apríl fór fram Rokköld, öldungamót í blaki, í Keflavík. Öldungamótið er einskonar uppskeruhátíð blakara og síðasta mót vetrarins. Skemmtun og góður félagsskapur er einkennandi fyrir mótið þar sem gleðin er allsráðandi. Spennandi og skemmtilegir blakleikir eru svo til að toppa þetta allt saman.

UMFS Bryðjur mættu með tvö lið á mótið, annað liðið spilaði í 9. deild og hitt í þeirri 10. Liðið í 9. deild gerði sér lítið fyrir og vann deildina sem er glæsilegur árangur, sérstaklega þegar litið er til þess að liðið vann sig upp úr 10. deild á síðasta móti. Ekki gekk alveg eins vel hjá liðinu í 10. deild en þær áttu góða spretti og höfðu, líkt og hitt Bryðjuliðið, gleðina ávalt í fyrirrúmi.

Bryðjur eru svo sannarlega búnar að stimpla sig inn í blakheiminn, auk þess að vera frábær félagsskapur fyrir konur á öllum aldri, þar sem gleði og hlátur hafa ráðið ríkjum síðastliðin fjögur ár.

Linda Margrét Sigurðardóttir