Búningaæfing í badminton á laugardaginn!

Nú er orðið  stutt í Öskudaginn og af því tilefni ætlum við hafa búningaæfingu í badmintoninu á laugardaginn. Allir krakkar, bæði í miniton og þeir sem eldri eru, eru hvattir til að mæta í búningum og spila þannig 🙂 Hlökkum til að sjá ykkur og við lofum skemmtilegri æfingu 🙂

Svo er vert að minna á að allar æfingar á vegum félagsins falla niður meðan vetrarfrí Hrafnagilsskóla stendur yfir.

Upplýsingar fyrir Þorlákshafnarmótið

Lagt verður af stað með lítilli rútu frá íþróttahúsinu við Hrafnagilsskóla kl 15.00 föstudaginn 6. feb.  Allir sem gista í Þorlákshöfn þurfa að hafa með sér dýnu, rúmföt og annan fatnað. Keppendur þurfa sjálfir að sjá um allan mat í ferðinni, gott að hafa með sér nesti fyrir rútuferðina en á báðum leiðum er gert ráð fyrir einu „kvöldmatarstoppi“ þar sem hægt er að kaupa sér eitthvað. Í Þorlákshöfn gistum við í skólastofum og höfum aðgang að ísskáp til að geyma t.d. morgunmat í. Líkt og fyrr greinir, greiða Samherjar keppnisgjöld, rútukostnað og gistingu fyrir alla keppendur. Góða skemmtun 🙂

Badminton mót á Þorlákshöfn laugardaginn 7. febrúar

Laugardaginn 7. febrúar fer fram Unglingameistaramót í badminton í B&C flokki. Mótið fer fram í Þorlákshöfn og spilað er í flokkum U11-U19. Undanfarin ár hefur farið nokkuð fjölmennur hópur frá Samherjum á þetta mót og haft gaman af. Þar sem spilað er í B&C flokki hentar þetta mót nánast öllum sem eitthvað kunna í badminton. Lagt verður af stað til Þorlákshafnar á föstudeginum og keyrt heim að móti loknu á laugadeginum. Samherjar greiða niður þetta mót fyrir keppendur sína og standa straum af kostnaði (akstri, gistingu, og keppnisgjöldum). Við hvetjum alla sem hafa verið að taka þátt í badmintoninu í vetur til að skrá sig hjá Sonju þjálfara í síma 699-3551. Skráningu lýkur raunar í dag, svo nú er um að gera að hafa hraðar hendur 🙂

Nýársmót Samherja í frjálsum íþróttum

Nýársmót Umf. Samherja verður haldið í íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar laugardaginn 10. janúar milli kl. 12 og 16. Byrjað verður með opna þrautabraut fyrir 9 ára og yngri kl 12.15. Mæting fyrir 10-12 ára og eldri er kl. 12.45 og keppni hefst kl. 13.00. Keppt verður í hástökki, kúluvarpi, langstökki, þrístökki án atrennu og 30 metra spretthlaupi. Skráning verður á staðnum. Við hvetjum alla Samherjakrakka til að taka þátt!
Stjórn Samherja

Áhugaverðir fyrirlestrar í dag!

Samherjar minna alla sína iðkendur á að mæta á áhugaverða fyrirlestra í Hrafnagilsskóla í dag kl 17. Sjá auglýsingu hér að neðan!!

UMSE stendur fyrir tveimur áhugaverðum fyrirlestrum sem ætlaðir eru öllum sem áhuga hafa á íþróttum og almennu heilbrigði. Fyrirlestrarnir verða fluttir í Hrafnagilsskóla kl. 17:00 þriðjudaginn 2. desember. Annars vegar verður fjallað um heilbrigðan lífsstíl og hins vegar um markmiðssetningu. Fyrirlesarar eru Sonja Sif Jóhannsdóttir íþróttafræðingur og Ellert Örn Erlingsson íþróttasálfræðingur. Samherjar hvetja allt sitt íþróttafólk, 11 ára og eldri, til að mæta og hlusta á umfjöllun um þessi mikilvægu málefni. Foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir með. Boðið verður upp á léttar veitingar milli fyrirlestra.
Stjórn Samherja

Badmintonmót á Siglufirði helgina 6.-7. desember

Helgina 6.-7. desember fer fram unglingamót TBS á Siglufirði. Samherjar ætla að fara á þetta mót með sem flesta keppendur.

Mótið hefst kl 9.30 á laugardeginum og líklegt er að þeir sem keppa í U-11 keppi bara annan daginn (trúlega laugardaginn).

Keppt verður í einliða- og tvíliðaleik í U-13, U-15 og U-17 en í U-11 er keppt í einliðaleik og aukaflokki.

Mótsgjöld í öllum flokkum eru 1200 kr. fyrir einliðaleik og 1000 kr. fyrir tvenndar- og tvíliðaleik.

Skráningar þurfa að berast Hauki Gylfa í síma 862-3224 fyrir mánudaginn 1. desember.

Allir Samherja iðkendur eiga erindi á þetta mót, jafnt byrjendur sem lengra komnir svo við hvetjum alla til að skrá sig og taka þátt 🙂