Samherjar í æfingahóp fyrir unglingalandslið í borðtennis :-)

Í dag var nokkrum Samherjum boðið á æfingu úrtakshóps fyrir unglingalandslið í borðtennis. Kristján Viðar, nýendurráðinn unglingalandsliðsþjálfari BTÍ, hringdi í dag til að athuga hvort okkar krakkar ættu ekki heimangengt.  Það er þó ekki reiknað með landsliðsverkefnum í vetur fyrir þann aldur sem fer frá Samherjum en mögulega á næstu 2-3 árum.  Æfingabúðirnar eru fyrir 15 ára og yngri og eru haldnar í æfingahúsnæði KR næstkomandi laugardag.  Kristján Viðar kom hérna með KR hópnum um daginn í æfingabúðirnar og unglingamótið okkar og sá til krakkanna spila.  Það eru 5 einstaklingar sem eiga kost á því að fara og vonandi verður hægt að koma því við að allir komist en þessi ferð verður skipulögð og fjármögnuð af foreldrum iðkenda ef af verður.

Það var annar ánægjulegur viðburður í dag en þátttökumet var á borðtennisæfingum fullorðinna í dag.  Það voru 16 iðkendur á öllum aldri sem komu á æfingar dagsins, þar af 7 á æfingu fyrir fullorðna.  Æfingar stóðu því linnulítið í 4 klst eða frá kl. 17 – 21.  Aldeilis svífandi gaman og ef þessi þátttaka verður viðvarandi þá er um að gera fyrir bestu krakkana að nýta sér það og mæta með þeim eldri líka.