Samherjar í 2. sæti á N1 mótinu – Jón Smári valinn sóknarmaður deildarinnar

5. flokkur Samherja keppti á N1 mótinu sem fram fór á Akureyri dagana 29. júní til 2. júlí.  Strákarnir kepptu í Frönsku deildinni ásamt 26 öðrum liðum. Liðunum var skipt í 4 riðla og var fyrirkomulagið þannig að tvö efstu liðin úr riðlunum komust áfram og kepptu til úrslita. Við tefldum fram 10 vöskum drengjum en þeir voru Ágúst Máni, Alexander Örn, Baldvin Egill, Benedikt Máni, Davíð Almar, Elmar Blær, Jakob Ernfelt, Jón Smári, Sævar og Valdemar Níels. Þjálfari drengjanna var Tryggvi Heimisson.

Samherjar sigruðu alla leiki í riðlakeppninni nema einn á móti KR sem fór 2-2.
Í undanúrslitum kepptu Samherjar við Hött frá Egilsstöðum og sigruðu 1-0 eftir afar spennandi leik. Í úrslitum kepptu Samherjar aftur við KR. Strákarnir okkar lentu tveimur mörkum undir en eftir magnaða baráttu jöfnuðu þeir þegar lítið var eftir og fór leikurinn 2-2 þegar leiktíma lauk. Var þá gripið til vítaspyrnukeppni sem fór svo að KR sigraði í bráðabana. Á lokahófi keppninnar var Jón Smári Hansson valinn besti sóknarmaður frönsku deildarinnar.
Það var hrein veisla að horfa á þessa 10 efnilegu drengi etja kappi við lið víðsvegar að af landinu.  Þeir voru okkur til sóma innan vallar sem utan.  Við þökkum öllum þeim foreldrum sem aðstoðuðu okkur við skipulagningu með bakstri, skutli og öðru sem þarf til þess að hægt sé að taka þátt í svona löngu og ströngu móti. Einnig þökkum við Tryggva kærlega fyrir að stökkva inn sem þjálfari í afleysingum.

Hans Rúnar og Adda Bára, liðsstjórar

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*