Ármann og Ódi hlutu starfsmerki UMSE

Þeir Ármann Ketilsson og Jón Óðinn Waage hlutu starfsmerki UMSE á aðalfundi Umf. Samherja sem haldinn var í Félagsborg 29. mars s.l. Báðir eru þeir vel að þessari viðurkenningu komnir og veitti Kristín Hermannsdóttir varaformaður UMSE þeim starfsmerkið.

IMG_4069  
Ódi, Kristín og Ármann á aðalfundinum  

Í umsögn um þeirra störf segir:

Jón Óðinn Waage hefur haldið utan um knattspyrnustarf yngri flokka hjá Samherjum með miklum myndarbrag undanfarin ár. Jón Óðinn eða Ódi eins og allir kalla hann hefur sýnt ótrúlega elju og útsjónarsemi við að fá allra yngstu þátttakendurna til að æfa íþróttir. Grunnreglan hjá Óda er að enginn er öðrum fremri og allir upplifa sig sem fullgilda þátttakendur óháð styrk og getu. Ódi hefur fært skipulagða íþróttaiðkun neðar í aldri en þekkist annarstaðar með því hreinlega að sækja krakka á leikskólann fyrir æfingar. Haft hefur verið á orði að hópurinn líkist ansi mikið andamömmu úti að labba með ungana sína þegar hersingin fylgir í humátt á eftir Óda á leið í íþróttahúsið.

Ármann Ketilsson stýrði framkvæmdum við nýjan gervigrasvöll Samherja frá upphafi til enda af mikilli röksemi og ótrúlegri ósérhlífni. Þetta var sérstakt afrek þar sem allt verkið var unnið í hreinni sjálfboðavinnu og byggði meira á bjartsýni en gildum sjóðum. Ármann stýrði misvitrum sjálfboðaliðum með lágmarks verkvit af einstakri jákvæðni og hélt að auki utan um öll efniskaup og skipulagsvinnu. Ármann lagði sig hart fram við að ná frábærum samningum við efnissala án þess að taka krónu fyrir og veitti Samherjum dýrmætt svigrúm í gegnum fyrirtæki sitt til fjármögnunar á efniskostnaði svo engar tafir urðu á verkinu.

Um veitingu heiðursmerkja segir í 4. grein reglugerðar UMSE:
Starfsmerki UMSE er silfurslegið, þar sem einkennismerki UMSE í lit situr ofan á silfurslegnum lárviðarkransi. Merkið má veita einstaklingum sem unnið hafa mikið og gott starf í þágu eða aðildarfélaga þess. Merkið skal jafnframt vera hvatning til áframhaldandi góðra starfa í þágu UMSE, aðildarfélaga þess eða íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar í heild sinni.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

*