Vel heppnuð sprett-þraut

Góð þátttaka var í sprett-þríþrautarkeppni, sem haldin var í og við íþróttamiðstöðina í dag. Keppnin var samstarfsverkefni UMF Samherja, íþróttamiðstöðvar og Þríþrautarfélags Norðurlands og var ekki annað að heyra á keppendum en ánægju með fyrirkomulag og alla umgjörð. Þátttökugjald rann óskipt til UMF Samherja en samstarfsaðilar binda vonir við að þetta geti orðið árlegur viðburður. Sjálfboðaliðar ungmennafélagsins stóðu sig að vonum vel og eiga þeir þakkir skildar 🙂 

Veitingasala Umf. Samherja og Dalbjargar á Handverkshátíð 2018

Handverkshátíðin fer fram dagana 9. – 12. ágúst. Eins og venja er sjá Umf. Samherjar og Dalbjörg um veitingasölu á hátíðinni og er þessi viðburður mikilvægasta fjáröflun félaganna ár hvert. Þetta væri ekki hægt ef fólkið í sveitinni tæki ekki höndum saman og stæði við bakið á félögunum með því að mæta á vaktir í veitingasölu eða eldhúsi. Ekki þarf að mæta á margar vaktir og standa lengi því margar hendur vinna létt verk.

Skráning á vaktir í veitingasölu og eldhúsi fer nú fram og hvetjum við alla sem vettlingi geta valdið til að taka þátt í þessari gleði með okkur.

Inn á heimasíðu ungmennafélagsins, www.samherjar.is, er hægt að smella á hnapp sem opnar skráningarsíðuna fyrir vaktirnar.

Eldhús:
Þrískiptar vaktir alla dagana (fim-sun)
Æskilegt 5 á hverja vakt
09:00 – 13:00
12:00 – 16:00
15:00 – 20:00
Ein vakt miðvikudaginn 8. ágúst

Veitingasala:
Tvískiptar vaktir alla dagana (fim-sun)
Æskilegt 12 á hverja vakt
11:00 – 15:30
15:00 – 19:30
Krakkar sem eru að byrja í 8. bekk eru gjaldgengir í veitingasölu.
Ein vakt miðvikudaginn 8. ágúst

Krakkar:
Krakkarnir sjá um að vakta innganga og ferja brauð milli eldhúss og veitingasölu
Vaktaskipti á heila tímanum, róterað á milli vaktstöðva sem eru 6 talsins
11:00 – 19:00
Æskilegt er að sem flestir krakkar taki þátt en ekki þarf að vera allan daginn.

Við minnum á að þetta er mikilvægasta fjáröflun félaganna og forsenda þess að hægt sé að halda uppi jafn öflugu starfi og raunin er í dag. Æfingagjöld ungmennafélagsins eru einnig afar lág vegna þess hversu vel hefur tekist til með þessa fjáröflun.

Sjáumst á Handverkshátíð 2018
Stjórn Umf. Samherja

Mótahelgin mikla!

Iðkendur UMF Samherja höfðu í nógu að snúast sl. helgi. 

Akureyrarmót í frjálsum íþróttum fór fram á Þórsvelli sl. laugardag og voru þar mætt til leiks hópur barna 8 ára og yngri.  

Á Árskógsströnd fór fram hið árlega Strandarmót en þar átti ungmennafélagið að sjálfsögðu lið – í fleirtölu 😉  6. og 8. flokkur kepptu á laugardaginn en 7. flokkur á sunnudaginn.  

Norðurlandsmótið í frisbígolfi var líka haldið um helgina en þar átti við flottan fulltrúa.  Trausti Freyr lenti í 2. sæti í undir 15 ára flokki eftir tap í bráðabana um sigurinn.

Eins og sést stóðu allir iðkendur sig með prýði þessa mótahelgi og var gleðin að sjálfsögðu við völd 🙂 

Trausti Freyr ásamt öðrum keppendum
Kátir krakkar í 6. flokki

Sigurreifir strákar í 7. flokki

Flottir frjálsíþróttakrakkar

Aukaaðalfundur

Aukaaðalfundur verður haldinn sunnudaginn 22. júlí kl. 18 í Félagsborg. 

Dagskrá fundar :

  • Samþykkt ársreiknings
  • Samþykkt félagsgjalda
  • Kosning varamanns í stjórn

Vonumst til að sjá sem flesta.

Stjórn UMF Samherja

Sjálfboðaliðar óskast!

Laugardaginn 4. ágúst fer fram sprett-þríþrautarkeppni í Hrafnagilshverfi.  Keppnin er í leiðinni fjáröflun fyrir UMF Samherja, þar sem þátttökugjald rennur óskert til Ungmennafélagsins.  Af þessu tilefni er óskað eftir sjálfboðaliðum (yngst einstaklingar fæddir 2005) til að sinna ákveðnum hlutverkum.  Það vantar a.m.k.:

Fjóra aðila til að telja sundferðir

Tvo-þrjá aðila til að vera við skiptisvæði keppenda

Þrjá aðila (fullorðna) til að standa við (og stöðva umferð ef þarf) gatnamót þar sem hjólað er

Einn-tvo aðila til að vera á snúningspunkti þangað sem hlaupið er

Keppnin sjálf stendur yfir frá kl. 12 á hádegi en reiknað er með að sjálfboðaliðar mæti með keppendum á fund kl. 11 þar sem farið verður yfir leiðir og annað.  Áætlað er að keppni ljúki kl. 14:30/15:00.

Áhugasamir hafi samband við Sonju í síma 699 3551 eða í netfangið sonja@internet.is með von um góðar undirtektir.

Að sjálfsögðu hvetjum við líka sem flesta í sveitinni til að taka þátt í þessum skemmtilega viðburði eða til að vera í klappliðinu 🙂