Bókagjöf frá KSÍ

Samherjum hefur borist bókagjöf frá KSÍ. Um er að ræða bókina “100 ára saga Íslandsmótsins í knattspyrnu” sem Sigmundur Ó. Steinarsson hefur skrifað og gefur út ásamt KSÍ. Um er að ræða fyrra bindi sem geymir sögu Íslandsmótsins í knattspyrnu frá upphafi 1912 til ársins 1965 en seinna bindið sem kemur út í nóvember 2011 mun geyma söguna frá árinu 1965 til og með 100. Íslandsmótinu árið 2011.

Um er að ræða glæsilegt rit þar sem rakin er saga vinsælustu íþróttagreinar á Íslandi auk þess sem birtar eru fjölmargar myndir sem margar hverjar hafa aldrei áður birst opinberlega.

Bókin er aðgengileg á Bókasafni Eyjafjarðarsveitar en ef einhver hefur áhuga á að eignast eintak af bókinni má hafa samband við Sigmund Ó. Steinarsson í síma 669-1304 eða senda tölvupóst á soss@simnet.is.

Stjórn Samherja

Síðustu æfingar vetrarins

Þá fer vetrinum að ljúka hjá okkur í sundinu. Hornsílin okkar eru hætt sem og höfrungarnir. Síðasta æfing flugfiskanna verður nk. fimmtudag en þá ætlum við að hittast í Sundlaug Akureyrar kl. 14.00. Foreldrar og systkini eru að sjálfsögðu velkomin. Ætlunin er að vera þar og hafa gaman til ca. 15.30 og skella okkur þá í Brynju. Því verða allir að koma með pening í sund og með pening fyrir ís.
Í leiðinni vil ég þakka fyrir frábæran vetur og hlakka til að sjá ykkur aftur sem fyrst, Bíbí.

Gjöf frá KSÍ

Mánudaginn 23. maí nk. kl. 14:30 mun Aron Einar Gunnarsson landsliðsmaður í knattspyrnu koma í heimsókn til okkar.  Ef veður verður gott stefnum við að því að vera á sparkvellinum en annars inni í íþróttahúsi.

Allir 16 ára og yngri knattspyrnuiðkendur, stelpur og strákar, eru hvattir til að mæta og taka við gjöf frá KSÍ. Um er að ræða DVD disk sem nefnist Tækniskóli KSÍ og er markmiðið með disknum að efla knatttækni komandi knattspyrnukynslóðar, hvetja til aukaæfinga og jákvæðrar hreyfingar.

Vonumst til að sjá sem flesta !
Stjórn Samherja

Knattspyrnuiðkendur umf. Samherja

Ákveðið hefur verið að bjóða fótboltaiðkendum félagsins að kaupa sína eigin Samherjabúninga, merkta með nafni og númeri.
Búningarnir (merkt treyja, stuttbuxur og sokkar) kosta einungis 4000 kr en það er Höldur hf sem styrkir kaupin sem gerir það að verkum að hægt er að bjóða búningana á svo hagstæðu verði.
Á næstu æfingum mun Ódi taka niður pantanir en einnig er hægt að senda tölvupóst á odijudo@gmail.com til föstudagsins 20. maí.
Stærð búninga miðast við hæð barnanna (120 cm, 134 cm, 140 cm, 152 cm o.s.frv. )

Með góðri kveðju,
stjórn umf. Samherja

Sundmót á Dalvík 15. maí

Sundmót sem Lions hreyfingin á Dalvík styrkir verður sunnudaginn 15. maí nk. Upphitun hefst kl. 10.00 og mót kl. 10.45. Keppt verður í öllum aldursflokkum. Um mótslok er ekki vitað svo ég mæli með að taka hollt og gott nesti með.
Skráning á mótið fer fram á morgun þriðjudaginn 10. maí á æfingatíma.
Farið verður á einkabílum svo það er um að gera að safna saman í bíla.
Nánari upplýsingar í s. 896-4648, Bíbí