Karl og Ivan eru Íslandsmeistarar í B flokki í tvíliðaleik karla.

Um helgina var Meistaramót Íslands í badminton haldið í TBR húsinu. Þar mættu Samherjar til leiks í fyrsta skipti en þetta er mót fyrir fullorðna og er keppt í Meistaraflokki, A – flokki og B – flokki. Þeir sem fóru á mótið frá Samherjum voru Árni Kristjánsson, Elvar Jóhann Sigurðarson, Haukur Gíslason, Kim Petersen, Ivan Falck Petersen, Karl Karlsson, Kristinn Jónsson, Ólafur Ingi Sigurðarson  og Sigurður Valgarðsson.

Skemmst er frá því að segja að árangur þeirra var mjög góður og þátttaka Samherja setti nokkurn svip á keppni í B – flokki. Samherjar náðu ágætis árangri á mótinu og komust á verðlaunapall í tveimur greinum. Kristinn Jónsson fékk silfurverðlaun í einliðaleik í heiðursflokki og Ivan og Karl unnu gullverðlaun í tvíliðaleik B – flokki. Það þýðir, ef greinarhöfundur skilur reglurnar rétt,  að þeir eru ekki gjaldgengir í B – flokk að ári heldur flytjast upp í A – flokk.

Til gamans má geta þess að Árni Kristjánsson varð fyrstur Samherja til þess að vinna leik á Meistaramóti Íslands í badminton en hann hafði sigur í fyrsta einliðaleik sínum. Hann var reyndar, ásamt Kristni Jónssyni, einnig fyrstur til að vinna tvíliðaleik. Árni hlýtur að leita logandi ljósi að konu til að keppa með sér á næsta ári og freista þess að verða einnig fyrstur Samherja til þess að vinna tvenndarleik á Meistaramóti.

Að loknum sigrum og töpum helgarinnar sneru keppendur heim reynslunni ríkari og eru þegar farnir að gera áætlanir um næsta mót.