Íslandsmót unglinga í borðtennis – ferðasaga.

Við fórum af stað um fimmleytið á föstudag fimm keppendur með fiðring í maganum ásamt öðrum þjálfaranum, þessum gamla, og honum Simma Heiðmarspabba.  Suðurferðin gekk áfallalaust þótt stoppað hafi verið í 1,5 tíma í Staðarskála og vindhviðurnar hafi verið í 40 metrum á sekúndu undir Hafnarfjallinu.  Rétt fyrir miðnætti vorum við komin í náttstað í Kópavoginum hvar sem við höfðum fengið ágætis íbúð að láni.

Laugardagurinn var stóri dagurinn og að þegar hafragrauturinn, brimsaltur að vísu, hafði verið snæddur var haldið á keppnisstað.  Riðlakeppni hófst klukkan 11 og af 6 riðlum í flokkum 10 ára og yngri áttu Samherjar keppanda í 5 þeirra.  Þegar riðlakeppnin var á enda höfðu 7 leikir unnist og 3 tapast og allir voru komnir upp úr sínum riðli.  Háspennuleikir riðlakeppninnar voru hjá Úlfi, sem lenti 0-2 undir í annarri sinni viðureign en vann 3-2 með stöðuna 11-8 í oddalotunni, og hjá Elínu sem fór í upphækkun í flestum lotum við annan sinn keppanda en tapaði síðan, í upphækkun, í oddalotunni.  Að lokinni riðlakeppninni var síðan útsláttarkeppni hjá drengjunum um sæti í undanúrslitum.  Þar drógust Trausti og Úlfur saman og Úlfur vann nokkuð örugglega 3-1 og Heiðmar vann sinn mótherja 3-0.  Það sem eftir lifði dags fór í afslöppun, spil, sundferð, ísbúð og stutta gönguferð í kuldanum í Kópavogi.  Kvöldmaturinn var tortilla sem Simmi eldaði af mikilli snilld og sælgætisneysla var leyfð á meðan horft var á “Aftur til framtíðar 2”.

Á sunnudeginum voru krakkarnir afslappaðri og fyrstu leikirnir voru í tvíliðaleik og var keppt í flokki 12 ára og yngri.  Þar kepptu Hildur og Elín saman og Trausti og Heiðmar.  Úlfur keppti með Reyni úr BH og þeir kepptu í flokki 14 ára og yngri.  Þarna stóðu sig allir framar vonum og var það sárgrætilegt að komast ekki í næstu umferð, sem hefði þýtt verðlaunasæti. Hildur og Elín töpuðu 2-3 og oddahrinunni 9-11.  Sama gerðu Trausti og Heiðmar eftir að hafa verið 9-7 yfir í oddalotunni.  Sannlega háspenna á ferð í báðum viðureignum.  Á meðan þessu stóð töpuðu Úlfur og Reynir 0-3 í sínum leik eftir að hafa verið í stöðunni 10-10 í fyrstu lotunni.  Þjálfari BH lofaði frammistöðuna og var mjög sáttur við okkar mann.
Þá voru það undanúrslitaleikirnir sjálfir.  Hildur og Elín drógust saman og Hildur vann nokkuð örugglega 0-3.   Úlfur vann aðra lotuna í sínum leik og spennan jókst verulega en andstæðingurinn hafði engu að síður sigur.  Heiðmar tapaði fyrstu tveimur lotunum en ákvað fyrir síðustu lotuna að slaka á og spila dálítið ákveðið.  Hann náði yfirhöndinni og hélt forystu en tapaði svo naumlega.  Þar með var ljóst að Hildur hefði nægan stuðning áhorfenda í úrslitaleiknum þar sem allir aðrir Samherjar höfðu lokið keppni.  Úrslitaleikurinn var jafn og spennandi en andstæðingur Hildar vann sinn undanúrslitaleik með miklum yfirburðum og var auk þess andstæðingur Hildar frá því í tvíliðakeppninni sem tapaðist naumt eins og áður sagði.  En eftir spennandi leik, sem var báðum keppendum til mikils sóma, og vakti fyrir það athygli áhorfenda, mátti Hildur sætta sig við 1-3 tap.

Að lokinni verðlaunaafhendingu tókum við smá krók í Pingpong.is þar sem Elín þurfti að kaupa spaðahulstur en síðan var lagt af stað heim.  Heimferðin gekk skínandi vel og ég held að allir hafi komið sáttir heim.  Á næsta ári förum við vonandi miklu fleiri á þetta mót og höfum amk jafn gaman af.

(Ferðasaga skráð af gamla þjálfaranum, Sigurði Eiríkssyni, sem þakkar ferðafélögunum jafnframt fyrir góða nærveru um helgina.)