Upplýsingar um æfingatíma og þjálfara

Æfingatímar í borðtennis eru 3 í hverri viku og allir eru þeir fyrir alla aldursflokka, þ.e. frá um það bil 6 ára til hundrað og sex ára.  Við spilum frá hálf fimm til sex (16:30 – 18:00) á þriðjudögum og fimmtudögum og síðan frá hálf ellefu til tólf á sunnudögum (10:30 – 12:00).

Þjálfarar eru Sigurður Eiríksson og Ólafur Ingi Sigurðarson og þó yfirleitt sé bara annar þeirra með æfinguna reyna þeir að vera sem oftast tveir. Félagið býr yfir rafknúnum gjöfurum sem senda kúlur á fyrirfram ákveðna staði og verða þeir notaðir öðru hvoru við þjálfun.

Það er best að mæta tímanlega. Allar æfingar byrja á stuttri upphitun og síðan eru leikir, æfingar og spil. Iðkendur geta spilað berfættir eða í íþróttaskóm, sem er betra. Það er líka gott að mæta í buxum eða jakka með vösum því það sparar verulegan tíma að geta sótt nokkrar kúlur í einu í æfingum eða í spili.

Um það bil tíu mínútum fyrir lok æfinga hjálpast allir við að ganga frá í salnum þannig að næsti tími geti hafist án truflunar.

Borðtennisæfing fellur niður á morgun, sunnudaginn 19. mars

Vegna Íslandsmót unglinga í borðtennis, sem nú stendur yfir á Hvolsvelli, fellur niður borðtennisæfing sunnudagsins.

Þeir sem vilja fylgjast með hvernig Samherjum gengur á mótinu geta séð úrslit í mótaforriti BTÍ eða smellt á þennan hlekk.

http://www.tournamentsoftware.com/sport/matches.aspx?id=945977A2-D0F6-43BB-A452-90EDE7770609

Borðtennis – dómaranámskeið

Foreldrar, eldri iðkendur og aðrir áhugasamir.
“Laugardaginn 21. janúar nk. heldur BTÍ Landsdómaranámskeið í sal A sem er á 3. hæð í Íþróttamiðstöð ÍSÍ í Laugardal, Reykjavík.  Námskeiðshaldari verður Alþjóðadómarinn Árni Siemsen.  Námskeiðið stendur frá kl. 10:00-12:30 og verður þá gert stutt hlé.  Í framhaldi af því verður Landsdómaraprófið tekið.
Mikilvægt er fyrir hreyfinguna að nægur fjöldi landsdómara sé til staðar vegna móta innanlands.  Þá veita landsdómararéttindi heimild til að taka Alþjóðadómarapróf ITTF en til að geta verið dómari á mótum ITTF þarf Alþjóðadómararéttindi.
Þáttakendur eru beðnir um að taka með sér skriffæri og blöð og æskilegt er að vera með fartölvu.  Þá er óskað eftir að þáttakendur renni yfir efni það sem er að finna á í dómarahorninu á vef BTÍ, sjá hlekk hér að neðan.   Námskeiðsgjald verður kr. 1.500,- til að standa straum af kostnaði vegna veitinga í hléi og greiðist gjaldið á staðnum.
Skráningar berist BTÍ á netfangið bordtennis@bordtennis.is.”

Úrslitakeppni í 2. deild BTÍ á morgun

Klukkan 10 í fyrramálið er úrslitakeppni BTÍ í 2. deild liða í borðtennis í íþróttahúsi Glerárskóla.  Þar keppa okkar menn í Samherjum B um sæti í fyrstu deild en í B sveitinni eru þeir Ingvi Stefánsson, Gísli Úlfarsson, Jón Elvar Hjörleifsson, Jóhannes Bjarki Sigurðsson, Rósberg Óttarsson og Sigurður Ingi Friðleifsson.

Endilega mæta og hvetja Samherja áfram.  Það er ekki sjálfgefið að komast í þetta umspil en þeir eru búnir að standa sig geysilega vel síðari hluta vetrar.  Liðið sem þeir keppa við er A sveit BH en hún var taplaus í sínum riðli svo þessi leikir verða afar áhugaverðir á að líta.

Hér er tengill í prýðis frétt Páls Jóhannessonar á akureyri.net um keppnina.

Áfram Samherjar