Ferðastyrkir hjá UMSE

Stjórn UMSE veitir ferðastyrki til íþróttafólks innan UMSE vegna æfinga- og keppnisferða. Hægt er að sækja um fyrir einstaklinga eða hópa.
Stjórnin setur sér vinnureglur um þessa styrki og miðast þeir við fjárhag sambandsins að hverju sinni. Hver einstaklingur getur einungis fengið einn styrk á hverju ári. Íþróttafólk getur sótt sjálft um styrkinn til stjórnar, en umsóknina þarf að staðfesta af forráðamanni íþróttafélagsins. Einnig geta aðildarfélög sótt um styrki fyrir hönd iðkenda. Úthlutað er tvisar á ári, í júní og október. Umsóknarfrestur er til 31. maí og 30. september.
http://www.umse.is/styrkir – á þessari slóð eru umsóknareyðublöð fyrir styrkina.

Badminton – Norðurlandsmót

Iðkendur UMF Samherja í badminton tóku þátt í Norðurlandsmóti, sem fram fór á Akureyri um sl. helgi en keppt var í barna- og unglingaflokkum og fullorðinsflokki.  Að sjálfsögðu gerðum við gott mót og bættum nokkrum titlum í safnið 🙂

Yngstu þátttakendurnir

  

Blak – góður árangur Bryðjukvenna

Tvö kvennalið UMF Samherja kepptu um nýliðna helgi á árlegu Öldungamóti Blaksambands Íslands. Blaklið Samherja keppir undir heitinu Bryðjur, til heiðurs eyfirsku tröllasysturinni og í þeim anda gerðu konurnar góða ferð á mótið sem í ár fór fram á Akureyri í umsjón KA fólks. Alls kepptu 14 Bryðjukonur í tveimur liðum á mótinu. Annað liðið kallaðist einfaldlega Bryðjur og gerðu þær sér lítið fyrir og unnu sína deild. Þær færast því upp um deild að ári. Bryðjur b tryggðu sér áframhaldandi keppnisrétt í sömu deild að ári, óháð því hvort þátttökuliðum hafi þá fjölgað. Það er Þorgerður Hauksdóttir sem hefur þjálfað Bryðjukonur undanfarna tvo vetur. Mikill uppgangur hefur verið í blakíþróttinni hérlendis undanfarin ár og hefur fjöldi þátttökuliða á mótum aukist jafnt og þétt. Samherjar hafa tekið þátt í þessari vakningu þar sem blaklið félagsins hefur undanfarna þrjá vetur æft í Íþróttamiðstöð Eyjafjarðarsveitar. Keppni á Öldungamóti BLÍ miðast við að þátttakendur hafi náð 30 ára aldri en yfir veturinn eru haldin ýmis æfingamót víðsvegar um Norðurland þar sem rýmri kröfur gilda um fæðingarár keppenda. Bryðjur hafa því undanfarna vetur tekið þátt í fjölmörgum mótum auk þess sem á æfingar vetrarins hafa mætt ungmenni úr Hrafnagilsskóla. Bryðjur fara nú í sumarfrí en munu hefja æfingar að nýju í haust og vonast til þess að enn fjölgi þá í hópnum enda fátt betra en kátar kynslóðir sem koma saman og stunda holla hreyfingu í góðum félagsskap.