Íþróttaskóli 2-5 ára

Íþróttaskóli Umf. Samherja verður í fjögur skipti núna á vormánuðum að því gefnu að næg þátttaka fáist. Íþróttaskólinn er fyrir börn á aldrinum 2-5 ára og er settur upp í leikja- og þrautabrautarformi þar sem foreldrar taka virkan þátt og fylgja sínu barni eftir.  Íþróttaskólinn verður laugardagana 27.04., 04.05., 11.05. og 18.05, frá kl. 10:15-11:00. Eins og áður er mikilvægt að börnin komi í þægilegum fötum og gert er ráð fyrir að þau verði berfætt.  Kostnaður er 3.000 kr. fyrir barn og er skráning á netfang Ungmennafélagsins, samherjar@samherjar.is, þar sem fram þarf að koma kennitala og fullt nafn barns og forráðamanns ásamt símanúmeri.  Umsjón með Íþróttaskólanum hefur Sonja Magnúsdóttir. 

🙂

Sjáumst í íþróttahúsinu

Sveita-Zumba

Þórunn Kristín Sigurðardóttir, zumbakennari, kemur í sveitina til okkar! Við dönsum í Hjartanu á mánudagskvöldum kl. 20-21, hittumst í anddyri sundlaugarinnar. Nýtt námskeið byrjar mánudaginn 6. maí með fyrirvara um næga þátttöku. Verðið er 6.000.- kr. fyrir fjögur skipti og innheimt í gegnum UMF Samherja. Nánari upplýsingar og skráning hjá Rósu, sími 692 8355 eða á netfangið samherjar@samherjar.is

Meistaramót 2019

Meistaramót Íslands í badminton fór fram sl. helgi. Að sjálfsögðu átti UMF Samherjar fulltrúa þar, þær Ivalu Birnu, sem keppti í A-flokki, og Söru, sem keppti í B-flokki. Ivalu gerði sér lítið fyrir og sigraði í einliðaleik kvenna í A-flokki en þær Sara og Ivalu tóku þátt í öllum greinum. Ivalu spilaði með Lilju Bu, TBR, í tvíliðaleik og Sebastian, sem spilaði hjá okkur í nokkrar vikur í vetur, í tvenndarleik. Sara spilaði með Erlu úr BH í tvíliðaleik og með Ara í tvenndarleik, en Ari spilaði undir merkjum KA þó svo hann hafi verið duglegur að mæta á æfingar hjá Samherjum.

Virkilega gaman að eiga svona flotta fulltrúa á svo stóru móti og óskum við Ivalu og Söru til hamingju með árangurinn og Ivalu til hamingju með titilinn!!

Aðalfundur

Aðalfundur Ungmennafélagsins Samherja verður haldinn mánudaginn 18. mars, kl. 20:00, í Félagsborg. Hefðbundin aðalfundarstörf. Málefni sem félagar óska eftir að taka fyrir á aðalfundi ber að tilkynna stjórnarmanni tveimur dögum fyrir aðalfund.

Við hvetjum alla áhugasama sveitunga um íþrótta- og æskulýðsstörf sveitarinnar að mæta. Tveir stjórnarmenn munu láta af störfum og tveir varamenn. Þeir sem vilja kynna sér stjórnarstörf félagsins og/eða bjóða sig fram eru beðnir um að hafa samband við formann í síma 693-6524 eða samherjar@samherjar.is. Einnig má kynna framboð á aðalfundi.

Með kveðju, stjórn Umf. Samherja.

Aldursflokkamót í borðtennis, laugardaginn 9. mars.

Aldursflokkamót Umf. Samherjar mun fara fram laugardaginn 9. mars í Íþróttamiðstöðinni við Hrafnagil eins og segir í mótaskrá BTÍ.

DAGSKRÁIN ER FYRIRHUGUÐ EFTIRFARANDI:

13:00 Einliðaleikur hnokka f. 2008 og síðar
13:00 Einliðaleikur táta f. 2008 og síðar
13:00 Einliðaleikur pilta f. 2006-2007
13:00 Einliðaleikur telpna f. 2006-2007
14:00 Einliðaleikur sveina f. 2004-2005
14:00 Einliðaleikur meyja f. 2004-2005
14:00 Einliðaleikur drengja f. 2001-2003
14:00 Einliðaleikur stúlkna f. 2001-2003

Við reiknum með að keyra aldursflokkana samhliða þangað til móti lýkur.

Við viljum vekja athygli á því að við mótahald Umf. Samherjar eru engir aðrir í íþróttasalnum en þeir sem eru dómarar, þjálfarar eða leikmenn sem eru að spila eða hafa verið kallaðir upp til að bíða eftir næsta leik.

Jafnframt biðjum við gesti okkar að gæta hófs í hvatningu og best væri ef yngsti aldurshópurinn fengi að leika sína leiki án þrýstings frá áhorfendum. Þar fer best á því að klappa vel fyrir keppendum að loknum leikjum. Við viljum fjölga í íþróttinni og það er mikið undir að yngri iðkendur hafi jákvæða upplifun af þátttöku í mótum.

Skráningarfrestur rennur út föstudaginn 8. mars nk. kl. 17:00

Mælst er til þess að leikmenn leiki í búningum síns félags.
Verðlaun verða veitt fyrir fjögur efstu sætin í öllum flokkum.
Þátttökugjald er kr. 1.000 og greiðist á mótsstað eða inn á bankareikning Umf. Samherjar 0302-26-805, kt. 540198-2689.

Senda skal tilkynningu við skráningu og millifærslu á netfangið sigeiriks@gmail.com og setja inn kennitölu leikmanns, sem greitt er fyrir.

Ef áhugi er fyrir gistingu fyrir mót, eftir mót eða hvort tveggja þá bið ég viðkomandi að hafa samband eins fljótt og kostur er.

Upplýsingar veitir Sigurður Eiríksson í síma 862-2181 eða með vefpósti á ofangreint netfang.