Borðtennismót janúarmánaðar – úrslit

Á mótið í dag mættu 17 keppendur, þar af 6 í flokk fullorðinna.  Mótið gekk prýðilega fyrir sig og keppendur eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna.

Fullorðnir spiluðu í einum riðli og léku því allir við alla.  Skemmst er frá því að segja að Jón Elvar sigraði alla sína leiki og hlaut því fyrsta sætið.  Sigurður Hrafnkelsson tapaði einungis fyrir Jóni Elvari og var því einn í öðru sæti og Sigurður Friðleifsson vann sína leiki að þeim tveimur frátöldum sem þegar eru nefndir og hreppti því þriðja sætið.

Börn og unglingar kepptu saman í einum breiðum aldursflokki.  Fyrst var spilað í 4 manna riðlum og að þeim loknum flokkað í A og B riðil eftir stöðunni í riðlakeppninni.

Sindri Sigurðsson sigraði A riðilinn en í 2 – 4 sæti voru jöfn Guðfinna Sigurbrandsdóttir, Heiðmar Sigmarsson og Jóhann Salvarsson.

Tinna Rúnarsdóttir sigraði B riðilinn, í öðru sæti var Þórlaug Sigurðardóttir og í þriðja sæti Trausti Sigurðarson.

Allir keppendur fengu Hlunk í verðlaun fyrir frammistöðuna og að loknu móti voru teknir nokkrir áskorunarleikir og voru það aðallega börnin sem sáu sóknarfæri í að leggja eldri þátttakendur að velli.

Stefnt er að því að halda svona borðtennismót mánaðarlega svo nú er um að gera að æfa sig.