Íþróttaskóli 2-5 ára

Íþróttaskóli Umf. Samherja verður í fjögur skipti núna á vormánuðum að því gefnu að næg þátttaka fáist. Íþróttaskólinn er fyrir börn á aldrinum 2-5 ára og er settur upp í leikja- og þrautabrautarformi þar sem foreldrar taka virkan þátt og fylgja sínu barni eftir.  Íþróttaskólinn verður laugardagana 27.04., 04.05., 11.05. og 18.05, frá kl. 10:15-11:00. Eins og áður er mikilvægt að börnin komi í þægilegum fötum og gert er ráð fyrir að þau verði berfætt.  Kostnaður er 3.000 kr. fyrir barn og er skráning á netfang Ungmennafélagsins, samherjar@samherjar.is, þar sem fram þarf að koma kennitala og fullt nafn barns og forráðamanns ásamt símanúmeri.  Umsjón með Íþróttaskólanum hefur Sonja Magnúsdóttir. 

🙂

Sjáumst í íþróttahúsinu

Sveita-Zumba

Þórunn Kristín Sigurðardóttir, zumbakennari, kemur í sveitina til okkar! Við dönsum í Hjartanu á mánudagskvöldum kl. 20-21, hittumst í anddyri sundlaugarinnar. Nýtt námskeið byrjar mánudaginn 6. maí með fyrirvara um næga þátttöku. Verðið er 6.000.- kr. fyrir fjögur skipti og innheimt í gegnum UMF Samherja. Nánari upplýsingar og skráning hjá Rósu, sími 692 8355 eða á netfangið samherjar@samherjar.is

Meistaramót 2019

Meistaramót Íslands í badminton fór fram sl. helgi. Að sjálfsögðu átti UMF Samherjar fulltrúa þar, þær Ivalu Birnu, sem keppti í A-flokki, og Söru, sem keppti í B-flokki. Ivalu gerði sér lítið fyrir og sigraði í einliðaleik kvenna í A-flokki en þær Sara og Ivalu tóku þátt í öllum greinum. Ivalu spilaði með Lilju Bu, TBR, í tvíliðaleik og Sebastian, sem spilaði hjá okkur í nokkrar vikur í vetur, í tvenndarleik. Sara spilaði með Erlu úr BH í tvíliðaleik og með Ara í tvenndarleik, en Ari spilaði undir merkjum KA þó svo hann hafi verið duglegur að mæta á æfingar hjá Samherjum.

Virkilega gaman að eiga svona flotta fulltrúa á svo stóru móti og óskum við Ivalu og Söru til hamingju með árangurinn og Ivalu til hamingju með titilinn!!

Aðalfundur

Aðalfundur Ungmennafélagsins Samherja verður haldinn mánudaginn 18. mars, kl. 20:00, í Félagsborg. Hefðbundin aðalfundarstörf. Málefni sem félagar óska eftir að taka fyrir á aðalfundi ber að tilkynna stjórnarmanni tveimur dögum fyrir aðalfund.

Við hvetjum alla áhugasama sveitunga um íþrótta- og æskulýðsstörf sveitarinnar að mæta. Tveir stjórnarmenn munu láta af störfum og tveir varamenn. Þeir sem vilja kynna sér stjórnarstörf félagsins og/eða bjóða sig fram eru beðnir um að hafa samband við formann í síma 693-6524 eða samherjar@samherjar.is. Einnig má kynna framboð á aðalfundi.

Með kveðju, stjórn Umf. Samherja.