BINGÓ þriðjudagskvöldið 5. mars – Veglegir vinningar!

Á morgun, þriðjudagskvöldið 5. mars kl. 20:00, verður haldið Bingó á vegum UMSE í Laugarborg/Hrafnagilshverfinu. Afreksturinn rennur í Gautaborgarferð á heimsleika unglinga í frjálsum íþróttum. Mjög veglegir vinningar verða í boði; flug og gisting, kjöt, kartöflur, heimaprjón, gjafabréf frá alls kyns fyrirtækjum og fullt spennandi. Spjaldið kostar 500,-kr. en eftir hlé er það selt á 300,-kr.  Sjoppa á staðnum og vöfflur seldar í hlé.

Sjáumst spræk !

Jólamót Samherja í frjálsíþróttum 8. desember

Umf. Samherjar bjóða til hins árlega “Jólamóts Samherja” í frjálsum íþróttum laugardaginn 8. desember klukkan 12:20. Að venju er mótið öllum opið og haldið í íþróttahúsinu í Hrafnagilsskóla. Mótið hefst klukkan 12:20 á þrautabraut fyrir 9 ára og yngri. Klukkan 13:00 hefjast síðan keppnisgreinarnar; þrístökk án atrennu, langstökk án atrennu, hástökk og kúluvarp fyrir 10 ára og eldri. Einnig í flokki kvenna og karla. Tímaseðill er kominn á mótaforrit FRÍ og er að finna á slóðinni: http://mot.fri.is/cgi-bin/ritarablod/Dagskramot1993.pdf

Þrautabrautinni lýkur klukkan 13:00 en öðrum keppnisgreinum lýkur eigi síðar en klukkan 16:30. Í kúluvarpi, langstökki án atrennu og þrístökki án atrennu fá keppendur 4 tilraunir í öllum aldursflokkum. Í hástökki getur hver keppandi ekki fellt oftar en 6 sinnum í keppninni.

Umf. Samherjar greiða keppnisgjöld fyrir sína iðkendur en aðrir keppendur greiða kr.1500,- í keppnisgjöld við komuna í íþróttahúsið (tökum ekki við kortum/enginn posi). Innifalið í keppnisgjöldum er ávaxtahressing sem að þessu sinni verða mandarínur og bananar ásamt drykk. Skráningar berist eigi síðar en klukkan 12:00 föstudaginn 7. desember í gegnum mótaforrit FRÍ, www.fri.is

Bestu kveðjur,
Frjálsíþróttaráð Samherja

Nóvembermót UFA 11. nóvember

Nóvembermót UFA verður haldið í Boganum sunnudaginn 11. nóvember. Skipulag mótsins er svipað því sem verið hefur undanfarin ár. Þrautabraut er fyrir 9 ára og yngri, eldri keppa í mismunandi íþróttagreinum. Hægt er að finna tímaseðil mótsins á slóðinni: http://mot.fri.is/cgi-bin/ibmot/timesedillib1985.htm  Nánari upplýsingar veitir Unnar þjálfari á æfingum og einnig er hægt að skrá sig hjá honum. Æfingar eru á þriðjudögum og fimmtudögum, yngri klukkan 14:00 og eldri klukkan 15:00, báðar í umsjón Unnars.

Uppskeruhátíð frjálsíþrótta hjá UMSE

Á uppskeruhátíðinni nú um helgina voru veittar viðurkenningar fyrir árangur á árinu. Fyrst er að nefna að Semherjar fengu afhentan stigabikarinn fyrir aldursflokkamót UMSE sem haldið var nú í ágúst. Á því móti hreppti Kristín Brynjarsdóttir stigabikarinn í flokki stúlkna. Guðmundur Smári Daníelsson tók stigabikarinn í flokki pilta og Ragnar Ágúst Bergmann varð annar. Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir varð önnur í kvennaflokki og Sveinborg Katla þriðja. Sigurður Friðleifsson varð þriðji í stigakeppni karla. Systkinin Sveinborg Katla Daníelsdóttir og Guðmundur Smári Daníelsson fengu viðurkenningu fyrir óvæntustu afrek ársins. Sveinborg er Íslandsmeistari í stangarstökki með stökk upp á 3,02 metra og Guðmundur hefur stórbætt árangur sinn í öllum greinum; langstökki, hástökki, stangarstökki, kúluvarpi, spjótkasti og sleggju. Guðmundur setti Íslandsmet í 5 kg sleggju á Dalvík í sumar með kast upp á 39,59 metra. Innilega til hamingju með árangurinn öll sömul.

Unglingalandsmótið á Selfossi 2012

Um verslunarmannahelgina var að venju haldið unglingalandsmót fyrir 11 – 18 ára krakka og að þessu sinni var það haldið á Selfossi. Keppt var í dansi, fimleikum, starfsíþróttum, golfi, glímu, frjálsíþróttum, knattspyrnu, körfuknattleik, motocrossi, sundi, hestaíþróttum, taekwondo, íþróttum fatlaðra og skák. Frjálsíþróttafólkið okkar hjá Samherjum stóð sig auðvitað með prýði sem fyrr á stórmótum. Guðbjörg Ósk Sveinsdóttir varð unglingalandsmótsmeistari í langstökki, hún varð önnur í spjótkasti og þriðja og 80 metra grindahlaupi. Stefanía Sigurdís sigraði í hástökki með stökk upp á 1,46 metra. En Stefanía varð einnig unglingalandsmótsmeistari í hástökki árið 2010 og árið 2011 hreppti hún þriðja sætið. Hástökkið er því að verða hennar aðalgrein. Guðmundur Smári Daníelsson varð síðan þriðji í 80 metra grindahlaupi. Til lukku með árangurinn krakkar.

Unglingalandsmótið árið 2013 verður að venju haldið um verslunarmannahelgina og næst verður það á Höfn í Hornafirði. Tilvalin fjölskylduferð þar sem alltaf er eitthvað við allra hæfi. Við mælum með því að Samherjar fjölmenni á næsta ári.

Uppskeruhátíð frjálsíþrótta hjá UMSE

Uppskeruhátíð frjálsíþrótta hjá UMSE verður haldin í Laugarborg næstkomandi sunnudag klukkan 17:00.  Veittar verða viðurkenningar, happadrætti verður í boði og kaffihlaðborð að dagskrá lokinni. Allir þeir sem hafa verið að æfa eða starfa í kringum frjálsar síðastliðið ár eru boðnir velkomnir.

Frjálsíþróttaráð UMSE og Samherja.