Að loknu Íslandsmóti unglinga í borðtennis.

Um helgina fengum við marga góða gesti á Íslandsmót unglinga í borðtennis.  Það voru rúmlega 80 keppendur og af þeim gisti um helmingur í Hrafnagilsskóla.  Samherjar voru með 14 keppendur á mótinu.  Hér gefur að líta uppröðun í salinn fyrri keppnisdaginn.

Uppröðun á fyrri keppnisdegi. Níu borð sem voru virk frá klukkan tíu að morgni til hálf sjö um kvöldið.

Verðlaunagripir Norðurlands sáu um verðlaunin á mótinu og voru þau sérstaklega glæsileg.

Í borðtennis er yfirleitt ekki spilað um 3. sætið heldur fá þeir sem tapa í undanúrslitum viðurkenningu fyrir að hafa lent í 3. – 4. sæti.

Jonas Björk var í mótsstjórn fyrir hönd Umf. Samherjar og ásamt honum voru Starri Heiðmarsson fyrir Æskuna og Helgi Þór Gunnarsson fyrir Akur.  Að öðrum ólöstuðum var Jonas sá albesti mótsstjóri sem hægt hefði verið að hugsa sér.  “Við” ákváðum fljótlega að læra vel á hugbúnaðinn (Jonas) og reyna að keyra mótið á annan hátt en hingað til hafði verið gert.  Blanda saman ólíkum leikjum og aldursflokkum fyrri keppnisdaginn og reyna að hafa hrein úrslit þann síðari.  Þessi áætlun gekk upp.

Hér koma nokkrar myndir af mótinu af handahófi.

Keppendur okkar stóðu sig allir vel.  Voru kurteis og komu vel fyrir.  Lögðu sig fram og ég held að enginn hafi farið í gegn um mótið án þess að vinna að minnsta kosti eina lotu.  En margir voru að keppa í fyrsta skipti á stóru móti.  Það er skoðun okkar þjálfaranna að sumir stærstu sigrarnir hafi mögulega unnist án þess að vera verðlaunaðir með bikurum og verðlaunapeningum.  Og þetta er skrifað alveg án þess að kasta rýrð á þau stóru afrek.

Samherjar unnu til nokkurra verðlauna á mótinu og telst okkur til að af þessum fjórtán þátttakendum hafi átta unnið til verðlauna en verðlaun eru aðeins veitt fyrir fyrstu 4 sætin eins og áður sagði.

Heiðmar var þarna stórtækastur og er þrefaldur Íslandsmeistari í sínum aldursflokki.  Eða í einliðaleik, tvíliðaleik og tvenndarkeppni.

Hildur varð Íslandsmeistari í einliðaleik og tvenndarkeppni og er þetta hennar fyrsti Íslandsmeistaratitill í einliðaleik.

 

Úlfur varð Íslandsmeistari í tvíliðaleik og varð í öðru sæti í tvenndarkeppni.

Trausti Freyr varð í 2. sæti í tvíliðaleik ásamt Jasups Meckl hjá Akri og þeir félagarnir deildu einnig 3. – 4. sæti í einliðaleik.

Sara Dögg Sindradóttir varð í 2. sæti í einliðaleik.

Lilja Óskarsdóttir varð í 3. – 4. sæti í einliðaleik.

Margrét Dana Þórsdóttir varð í 3.-4. sæti í tvíliðaleik ásamt stúlku frá KR.

Sólveig Kristinsdóttir varð í 3.-4. sæti í tvenndarkeppni með honum Ingó hjá Akri.

Ég held að ég sé ekki að gleyma neinum verðlaunahafa en eins og áður sagði þá voru stórir sigrar einnig unnir án viðurkenninga í formi peninga og bikara.  Þau Ronja Sif Björk, Akvelina Darta Bruvere, Anna Keita Eksteine, Aksels Rojs Eksteins, Hlynur Snær Elmarsson og Gabriela Rimkute voru bæði félaginu og sjálfum sér til sóma. Þau eiga það öll sameiginlegt að hafa byrjað að æfa borðtennis síðasta haust. Krakkarnir eiga því eftir að fá næg tækifæri til að nýta reynsluna úr þessu móti. Það var stórkostlega gaman að sjá hvað iðkendur bættu sig þegar á mótið leið og hvað sumir nýliðarnir fengu mörg stig gegn þeim bestu þó leikir ynnust ekki.  Hér koma nokkrar myndir af verðlaunahöfum frá í dag en það vantaði marga af okkar fólki vegna frjálsíþróttamóts og veisluhalda.

Hópmynd eftir að verðlaunaafhendingu lauk. Því miður voru margir fjarverandi en keppendur voru sem áður sagði liðlega 80.
Þetta eru brautryðjendurnir okkar ásamt þjálfurum. Það má segja að borðtennisstarfið hafi farið af stað fyrir alvöru í hópferð í TBR húsið á Íslandsmót unglinga fyrir nokkrum árum þegar þessi öll voru í yngsta flokknum. Þau eru góðar fyrirmyndir, dugleg að leiðbeina hinum yngri og áhugasöm um að bæta sig á allan máta.
Eins og sést var bara helmingur þátttakenda okkar viðstaddur verðlaunaafhendingu í dag. En þetta er myndarhópur, bæði þessi sjö og hin sjö sem voru fjarri.

 

Við getum svo ekki skilið við þessa umfjöllun án þess að minnast aðeins á fyrirkomulag og samvinnu.  Við fengum frábæran matreiðslumann til þess að sjá um morgunverð og aðrar máltíðir.  Allir yfir sig ánægði með það.  Við vorum með veitingasölu sem foreldrar og fjölskyldur þeirra hjálpuðust að við að starfrækja. Það var talsverð vinna en nauðsynleg og skilaði fjármunum í ferðasjóð iðkenda.  Vöfflurnar hjá Hrund voru stórkostlegar og Aldís Lilja tók að sér skrifstofustjórn, innheimtu félagsgjalda og sölu á matar- og gisti armböndum.   Ýmsir fleiri lögðu mikið til og vart hægt að telja þá upp hér því einhverjir yrðu áreiðanlega útundan.

Eyjafjarðarsveit lagði okkur til sundlaugina á laugardagskvöldið fyrir sundlaugarpartí og var það bæði afskaplega rausnarlegt og vinsælt.  Elstu krakkarnir okkar sáu um músíkina og var að þessu gerður góður rómur.  Samherjar aðstoðuðu við gæslu og var þetta svona eins og foreldravaktin þar sem við gengum fram og aftur um útisvæðið og nutum hljómlistarinnar.  Enn nokkrar myndir.

Eftir þessa yfirferð má ég til með að minnast á litlu kraftaverkin sem allt í einu gerast og allt smellur.  Þegar mótið var að fara af stað og allt í kaos kom Gunnur Ýr og spurði hvað hún gæti gert.  Því var fljótsvarað – hjálpa til í mótsstjórn.  Síðan sá hún um að kalla upp alla leiki mótsins, finna dómara og vinna með Jónasi við skipulag og úrvinnslu.  Síðan birtist Harpa seinnipart dags og bættist í aðstoðina og hún endaði mótið á því að lesa upp verðlaunahafa eins og atvinnumaður í útvarpi.

Jonas setti úrslit jafnóðum á netið og því var hægt að fylgjast með öllu sem gerðist nánast jafnóðum og Borðtennissambandið var einnig með YouTube útsendingu nánast allan sunnudaginn og hluta laugardags.  Þær er enn hægt að sjá á rás BTÍ.

Við borðtennisþjálfarar Umf. Samherjar erum nánast klökkir yfir árangri helgarinnar.  Bæði styrkleika okkar keppenda en ekki síður styrkleika samfélagsins, foreldranna og annarra sem að komu.  Starfsfólk sundlaugarinnar fékk alveg að snúast aukahringi um helgina og hafa þau sjálfsagt farið dauðþreytt heim núna í lok dags.  En við erum einnig djúpt snortnir yfir ánægju allra gestanna okkar með mótið, aðstöðuna, matinn og helgina yfirleitt.  Það virðist hafa gengið upp sem stefnt var að.  Að búa til borðtennishelgi sem skilur eftir sig góðar minningar, hvort sem sigrar unnust við borðin eða ekki.

Takk öll

Ólafur Ingi Sigurðsson
Sigurður Eiríksson

(Svo förum við auðvitað í góða hópferð á Íslandsmót unglinga 2019, hvar svo sem það verður haldið.)